Náms og kynnisferð til Þýskalands

skrifað 13. okt 2010

Í september sóttu þrír starfsmenn námskeið hjá kranaframleiðandanum  MKG Maschinen- und Kranbau  í Garrel í Þýskalandi.

Aðalástæðan fyrir þátttöku í námskeiðinu var, að nokkrar beiðnir höfðu borist um úttek á svokölluðum MOB (Men Over Board) lífbátakrönum, en samkvæmt kröfum flokkunarfélaga þarf nú að skoða slíka krana á hverju ári.

Auk þess að taka hefðbundin viðhaldskúrs hjá MKG var farið yfir löggildingarmál skipskrana. Að námskeiðinu loknu öðlast starfsmennirnir réttindi til þess að taka út skipskrana samkvæmt evrópskum reglugerðum. Ekkert annað íslenskt fyrirtæki sinnir þessum úttektum og hefur þurft að kalla á menn frá öðrum löndum til að framkvæma slíkar skoðanir.

Þá má búast við að erlend skip sem eiga hér leið um, þurfi í framtíðinni að láta framkvæma slíkar skoðanir til að fá að sigla um íslenskt umsjónarsvæði. Er skemmst að minnast skemmtiferðaskipsins “Antarctic Dream” sem var stöðvað í Keflavík með óvirka lensiskilju , sem Framtak gerði síðan við áður en skipið fékk leyfi til að halda áfram ferð sinni.

Að námskeiðinu loknu var haldið til Hamborgar og farið á hina geysistóru SMM véla- og tækjasýningu þar sem menn kynntu sér það nýjasta sem er í boði, auk þess að heilsa upp á birgja og framleiðendur sem Framtak hefur séð um að þjónusta.

Áður en farið var til Þýskalands, var komið við hjá BOSCH í Danmörku þar sem menn kynntu sér uppsetningu og vinnubrögð á tveimur dieselverkstæðum sem samþykkt eru af BOSCH. Framtak-Blossi sem er viðurkennt þjónustuverkstæði fyrir BOSCH á Íslandi (Authorized Bosch Diesel Center) er einmitt þessa dagana að ljúka við uppsetningu á nýju verkstæði, þar sem farið er eftir ströngum gæðakröfum BOSCH, bæði hvað varðar húsnæði og tækjabúnað.